Færsluflokkur: Dægurmál
Hættum að láta koma fram við okkur eins og fífl.
1.1.2009 | 20:00
Eftir allt það sem dunið hefur á okkur íslenskri þjóð síðustu vikur og mánuði er ekki komin tími til að við, þjóðin, fólkið í þessu landi rísum á fætur og hættum að láta koma fram við okkur eins og fífl. Ráðamenn þessa lands eru duglausir í öllum ráðum sem viðkemur afkomu fólksins í landinu. Síðustu vikur sanna það svo um munar. Þeir virðast gæta hagsmuna þeirra sem komu okkur í þessa stöðu með ágætum skilum.Í skilanefndum bankanna velst fólk sem tók þátt í sukkinu í gömlu bönkunum. Sömu ráðherrarnir sitja að völdum, sömu ráðuneytisstjórarnir, sömu aðstoðarmennirnir. Sama fólkið og sleikti hönd sinna gömlu húsbónda í bönkunum er þar ennþá, nú orðnir opinberir bankastjórar á ofurlaunum sem eru ekki í neinum tengslum við raunveruleika fólksins í landinu. Í fjármálaeftirlitinu situr sama fólkið og átti að hafa eftirlit með gömlu bönkunum, nú að hafa eftirlit með vinum sínum í nýju bönkunum. Þetta er algjörlega óviðunandi ástand sem við getum ekki látið ganga yfir okkur. Á sama tíma og okkur berast fréttir af niðurfellingu skulda stórskuldugra vildarviðskiptavina og starfsmanna í gamla bankakerfinu þá fáum við, almúginn fréttir frá ríkisvaldinu að nú séu erfiðir tímar framundan og að nú verði að herða sultarólarnar en jafnframt að ganga bjartsýn fram á veginn. Ekki megi persónugera vandann og umfram allt alls ekki hefja neinar nornaveiðar. En við megum gjöra svo vel að borga hærri tekjuskatt. Þjónusta hins opinbera minkar stórlega. Útsvar flestra sveitarfélaga hækkar. Þjónusta flestra sveitarfélaga mun minnka. Hækkun á gjaldskrá er staðreynd. Afborgun lána hækkar. Kaupmáttur heimilanna minnkar og samt sem áður eigum við að vera róleg og leyfa sama fólkinu á grútmáttlausu alþingi og ríkisstjórn sem hefur ekki hugmynd um hvernig er að herða sultarólina þegar enginn göt eru til þess lengur á ands....beltinu. Hvað veit Geir Haarde um kjör þjóðarinnar annað en það sem honum hefur verið sagt eða lesið á blaði? Hann hefur ekki deilt kjörum með þessari þjóð í yfir tíu ár. Hvað veit Árni Matthiesen um kjör þjóðarinnar? Fæddur með silfurskeið í munni og búinn að vera að maka krókinn með sölu á stofnfjárhlutum í sparisjóði Hafnarfjarðar. Hvað veit Björn Bjarnason um kjör þjóðarinnar? Erfðaprinsinn sjálfur sem hugsar helst um það að vopnbúa lögregluna. Mestu vonbrigðin eru þó með Samfylkinguna og Ingibjörgu Sólrúnu boðbera hins nýja tíma á Íslandi. Það fer lítið fyrir jafnaðarstefnunni í dag hjá Ingibjörgu Sólrúnu og hennar flokki. Maka krókinn og verma stólana, það er það eina sem þeir geta. Allar hugmyndir þeirra að lausnum varðandi hag heimilanna gera ekkert fyrir okkur. Ekkert. Frysting lána fellur niður hjá flestum eftir mánuð eða svo. Lánin hafa hækkað ef eitthvað er. Verðbólgan hefur hækkað svo og lánskjaravísitalan. Það sér hver heilvita maður að það breytir engu að fresta því að segja fólki að það skuldi hinu opinbera. Við það fellur skuldin ekki niður. Eða hvað? Að bjóða fólki að sleppa að greiða smábrot af verðtryggingu þar til síðar og geyma hana inn á reikningi, vafalaust verðtryggðum, breytir engu. Skuldin er til staðar eftir sem áður. Þegar Davíð Oddson sagði, eftir ráðleggingum ömmu sinnar í frægu Kastljósviðtali að ,,Við borgum ekki skuldir óreiðumanna átti hann þá við Seðlabankann sinn? Þjóðin veit að svo sannarlega fær hún að borga skuldirnar. Bæði þeirra, óreiðumannanna og sinna eigin, án afsláttar. Ekkert einkahlutafélag þar á bak við. Það er deginum ljósara að þjóðin er að vakna af værum blundi eftir jólahátíðina. Þegar sótsvartur veruleiki nýs árs með fjölda atvinnuleysi og gjaldþrotum dynur yfir þá dugar hvorki hroki ráðherranna né getuleysi þeirra til að róa þjóðina sem kaus þá. Sá veruleiki rennur upp fyrir þeim að það er sitthvað að ræða málin á rólegum nótum við þá sem allt eiga og allt hafa. Skjól og öryggi. En þegar vonleysi, biturð, vonleysi og reiði eru komin í staðin þá er stutt í sprengiefnið. Þegar fólk hefur engu að tapa lengur og enginn von um að hlustað verði er stutt í veruleika sem við þekkjum aðeins af afspurn.
Við ríkisstjórnina sem ég kaus vil ég segja þetta: Skammist ykkar til að segja af ykkur. Þið hafið lítilsvirt þjóðina með ákvörðunum ykkar og hafið enga sómakennd.
Þið eruð rúin öllu trausti.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)