Gráðugt ríkisflugfélag
22.3.2010 | 18:02
Það er er ekki að sökum að spyrja að flokkar öreiga og verkalýðs ráðast fram og demba lögum á réttmæta kjarabaráttu flugvirkja. Látum það liggja á milli hluta að þeir eru fráleitt láglaunastétt en það að grípa inn í deilu á vinnumarkaði á milli fagstéttar og Flugfélags á samkeppnismarkaði er glórulaust með öllu, og það á fyrsta sólarhring vinnudeilunnar. Var ekki Ríkissáttasemjari með málið í sínum höndum? Gleymum því ekki að Icelandair er ekki lengur einrátt með gráðugar klærnar á íslenskum flugmarkaði lengur. Iceland Express og SAS fljúga oft í viku frá Keflavík. Það er beinlínis ömurlegt í ljósi þess hvaða skilaboð háttvirtur Samgönguráðherra er að senda þjóðinni. Þegið og hlýðið. Hann fór reyndar ansi frjálslega með tölur yfir farþega sem Icelandair eiga að flytja á degi hverjum um Keflavík. 5000 manns. Já gaman væri að sjá hann standa við þau orð þegar semja þarf við aðrar stéttir á vellinum sem standa straum af rekstri sínum með innheimtu vopnaleitargjalda. Ætli talan sé nú ekki nær 2000 á góðum degi og dettur hæglega niður í 600 manns á dag hjá Ríkisflugfélaginu með óhóflega aðganginn að ráðamönnum.
Vissulega er mikið í húfi þar sem ferðamannaiðnaðurinn er með alla sína dollara og evrur. En í grundvallaratriðum þá hélt ég að svona inngrip ríkisstjórnar væru löngu liðin arfleið.
Lög á verkfall flugvirkja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll,
Eru 318.000 kr. há laun eftir 5 ára nám erlendis?
Eftir 15 ár í starfi geta laun hækkað um 26.5% og eru þá 402.000 kr.
Eru þetta há laun - ekki má gleyma að eftir námið eru himinháar skuldir - eins og hjá öðrum námsmönnum sem þurfa að sækja sína menntun út fyrir landssteinana.
EN gaman væri að fá svar :)
inga (IP-tala skráð) 22.3.2010 kl. 19:57
Er þetta virkilega forgangsröðunin hjá þessari Ríkisstjórn? Að beita sér í kjaradeilu launþega við einkafyrirtæki? Afnema verkfallsrétt launþega?
Hvað með að afnema bankaleynd, kyrrsetja eigur stórglæpona, stjórnlagaþing, skjaldborg heimilanna o.s.f.r.v.
Það er orðið deginum ljósara fyrir hverja hún er að vinna. Og það erum ekki við þjóðin.
Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 22.3.2010 kl. 20:19
Inga! Nei þetta eru ekki há laun. Enda var ég alls ekki að hallmæla flugvirkjum. En meðallaun þeirrar stéttar voru aðeins hærri en 318.000 á s.l. ári er það ekki. Annars er ég alfarið á móti því að sífellt sé verið að tuða um hvað aðrar stéttir hafa í laun. Það er hver að semja fyrir sig og það er aldrei hægt að réttlæta svona ósanngjörn inngrip í vinnudeilur.
Arnór! Innilega sammála þér. Það er deginum ljósara fyrir hvern ríkisstjórnin er að vinna. En það er ekki eins og eitthvað skárra bíði handan við hornið þótt það réttlæti ekki þessa hörmung serm við höfum.
Kristján Jóhannsson, 22.3.2010 kl. 20:41
Ég, sem skulda engum neitt, myndi alveg sætta mig við 200.000 kr. á mánuði eins og verðlagið á eyjunni er orðið.
Tóti tölvukall (IP-tala skráð) 22.3.2010 kl. 20:59
Það er nú einmitt málið með þess blessuðu ríkisstjórn-leysingja, að þeir hugsa bara um eigin rass og að rembast við að halda sínum stól í staðinn fyrir að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar. Og þetta sama fólk sem heyrðist hvað mest í hér áður "ég mótmæli, ég mótmæli" og "fólk verður að axla ábyrgð". Nei það væri sko nær að nota sína krafta í að uppræta þessa spillingu og útrásarvíkingapeningasvik sem svo lendir á okkur öllum, hinum almenna borgara, en að ráðast á rétt okkar allra að fara í verkfall. Nei kannski óheppileg tímasetning, en grínlaust að þá er ansi slappt að byrjunarlaun flugvirkja eftir marga ára og milljón króna nám séu 319 þúsund. Þess má geta að flugumferðarstjórar hafa tvöfalt það og borguðu ekki krónu af sínu námi fyrren nýlega og kostar vel innan við milljón.
Vinstri stjórn að setja lög á verkalýðinn, þar er eitthvað mikið ekki í lagi
Davíð (IP-tala skráð) 22.3.2010 kl. 21:45
Flugumferðarstjórar hafa reyndar ekki tvöfalt það. Byrjunarlaun hjá flugvirkjum eru 318.000, eins og þeir hafa gefið út. Byrjunarlaun eru eitthvað um 340.000 hjá flugumferðarstjórum.
Hins vegar er ég mjög sammála Kristjáni, að það skiptir í raun ekki máli hver launin eru. Það er hver að semja fyrir sig og aldrei hægt að réttlæta svona inngrip í vinnudeilur, nema eitthvað "force majeur" liggi við. Þar fyrir utan væri nær að fólk sýndi svona baráttu stuðning og þá mega aðrar stéttir kannski frekar eiga von á stuðningi frá flugvirkjum þegar að þeirra baráttu kemur. Við sitjum öll saman í súpunni hér og megum ekki láta ríkisstjórnina sundra okkur.
Jón Ingi (IP-tala skráð) 22.3.2010 kl. 23:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.