Öflugara alþingi!
7.1.2009 | 11:26
Egill Jóhannsson forstjóri Brimborgar kemur fram með mjög athyglisverðar hugmyndir um að styrkja fastanefndir alþingis á bloggi sínu í dag. Það er ótrúleg staðreynd íslensks lýðræðis hversu gríðarlega veikt löggjafarvaldið er gagnvart framkvæmdavaldinu. Nær öll lagafrumvörp eru samin af sérfræðingum í ráðuneytum. Þingmannafrumvörp er fátíð og fyrir þingmann í stjórnarandstöðu er nær ómögulegt að koma málum í gegnum þingið. Annars eru þær áhugaverðar hugmyndir Jóns Baldvins Hannibalssonar sem hann lagði fram skömmu fyrir jól um uppstokkun á kerfinu í heild. Hugmyndir Jóns Baldvin eru að hluta til byggðar á hugmyndum Vilmundar Gylfasonar um beina kosningu forsætisráðherra. Þetta eru hugmyndir sem vert væri að skoða nánar núna þegar við blasir að heljarinnar naflaskoðun á íslensku samfélagi. Þrískipting valdsins þ.e. löggjafar, framkvæmda og dómsvalds er allt of óskýr. Ráðherrar gegna þingmennsku jafnfram störfum sínum í ráðuneytum, ráðherrar skipa dómara o.s.frv. Hugmyndir Jóns Baldvins um franskt/Þýskt módel í þessum efnum að kjósa forseta/forsætisráðherra beinni kosningu þannig að eftir stendur aðili með meirihluta atkvæða á bak við sig sem síðar velur sér mannskap í ríkisstjórn á móti sterku alþingi er eitthvað sem við ættum að skoða betur. Fækka alþingsmönnum og fjölga frekar sérhæfðum aðstoðarmönnum og gera þingið sjálfstæðara og sterkara gagnvart framkvæmdavaldinu. Alþingi myndi síðan koma með beinum hætti að ráðningu dómara. Er þetta ekki eitthvað sem vert væri að ræða?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.