Fáránleikur!
20.1.2009 | 08:50
Ég hitti mikið af fólki í starfi mínu. Eðlilega er mikið talað um fjármálakreppuna og allt sem henni viðkemur. En ég skynja núna, sérstaklega í eftir jólin að fólk er hrætt. Fjölskyldufaðir og aðalfyrirvinna heimilis sem er að missa vinnuna 1. febrúar sagði við mig í gær ,,Ég hef aldrei verið svona hræddur við framtíðina . Það er enga vinnu að fá, aðeins bætur og ég rek ekki fjölskyldu sem telur fimm manns á atvinnuleysisbótum." sagði þessi maður og bætti við ,,Konan mín hefur aðeins verið í hlutastarfi utan heimilis og tímaspursmál hvenær hún missir vinnuna líka. Það er ótrúlega stutt í að ég þurfi að taka erfiðar ákvarðanir varðandi fjárhagslegar skuldbindingar okkar". Þetta er staða sem þúsundir íslendinga eru í núna, fjölmargir sjá enga lausn út úr vandanum nema gjaldþrot. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að koma á móts við fólkið í landinu eru algjörlega máttlausar og Nýju bankarnir eru lítið tilbúnir að aðstoða fólk og svörin sem þú færð þar eru öll á einn veg ,,Okkur skortir heimildir og vitum ekkert hvað við eigum að gera" og það eru hundrað og eitthvað dagar síðan. Á sama tíma berast fréttir af svo ógeðslegri sjálftöku fyrrum eiganda bankanna út úr þeim að manni verður flökurt. Enn má alls ekki persónugera vandann. Á meðan er venjulegir þegnar þessa lands svefnvana af áhyggjum hvernig redda eigi næstu afborgun. það skýtur líka skökku við að fjölmiðlar bera stöðugt fréttir af harkalegum innheimtuaðgerðum fjármögnunarfyrirtækja og nú síðast hefur innheimtumaður ríkissjóðs á Selfossi ákveðið að beita fjársveltri lögreglu sinni á borgarana og færa þá handtekna fyrir sig til fjárnáms. Þetta er farið að minna á fáránleik af verstu gerð. Hvar er hófssemdin í innheimtum sem boðuð var. Ástandið á Íslandi verður sífellt eldfimara og styttist stöðugt í þræðinum, og þá er ég hræddur um að fleiri vopnum verði beitt en piparúða. Núverandi ríkisstjórn er ráðþrota, það hafa ráðherrar sjálfir viðurkennt. Þeir eiga að segja af sér strax og svo verður boðað til kosninga sem allra fyrst. Þannig fáum við þær breytingar sem okkur vantar svo sárlega.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.