Siðbót og smáhundar!
29.1.2009 | 10:05
Áróðursvél Sjálfstæðisflokksins er á fullu þessa dagana að hræða landsmenn með kommúnista áróðri og sífelldu juði um að allt fari til andskotans um leið og þeir og þeirra flokkur yfirgefi stjórnarráðið. Ekki búið að mynda ríkisstjórn né nokkur málefnasamningur á borðinu en sami gamli hræðsluáróðurinn byrjaður. En það sem sjálfumglaðir Sjálfstæðismenn gleyma í geðvonskukasti sínu að það voru þeir sjálfir, flokkurinn og fylgismenn þeirra sem stýrðu þjóðinni inn í þetta ömurlega ástand. Því fyrr sem þeir viðurkenna það því minna verður tjón flokksins í komandi kosningum.
Það er talað um siðbót og nýja hugsun í íslenskri pólitík. Það er krafa almennings. Fólk er búið að fá upp í kok yfir spilltum stjórnmálamönnum sem hafa látið eiginhagsmuni ganga fyrir hagsmunum almennings. Græðgihugsunin hefur ráðið og lengi. Að sjálfssögðu hlýtur það að vera þyngra en tárum taki fyrir Sjálfsstæðisflokkinn að missa tökin á atburðaráðsinni. Að geta ekki lengur verið með flokkskrumlurnar á öllu athafnalífi landsins. Og þeir trúa því svo heitt að þeir einir geti stjórnað. Þjóðin gaf þeim tækifæri en vill nú breytingar. Því verða þeir að kyngja.
En sjálfstæðisflokkurinn en fráleitt eini stjórnmálaflokkurinn sem þarf að gera upp fortíðina. Framsóknarflokkur hóf sína siðbót með nýjum formanni. Samfylking verður einnig að gera upp sýna fortíð. Dekur þeirra gagnvart Baugsveldinu má ekki falla í gleymsku. En vissulega bera sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur mestu pólitísku ábyrgð á hvernig málum er komið. Smáhundadeild Sjálfstæðisflokksins sem og aðrir fótgönguliðar þeirrar maskínu eiga eftir að vera óþolandi næstu vikurnar í áróðri sínum yfir hversu allt var æðislegt á meðan þeir voru við völd. Lítum þá á tölur yfir atvinnulausa. Lítum þá á verðbólguna. Lítum þá á harmleikina sem eiga sér stað allt í kringum okkur hjá fjölskyldum sem ná ekki endum saman. Lítum þá á þá sviðnu jörð efnahagslífsins sem blasir við. Ætlar þessi helsta valdablokk að halda því fram að hún beri enga ábyrgð á því hvernig komið er? Að þetta sé bara óheppileg afleiðing lausafjárskreppunnar sem hófst einhversstaðar í Louisiana?. Nei svo sjálfumglaðir geta þeir ekki verið! Gefum Sjálfstæðisflokknum frí. Átján ár á valdastóli er feikinóg í bili. Flokkurinn er fullur af innanmeinum og þarf að taka sér frí af heilsufarsástæðum. Siðbót, og ekki síst heiðarleg og opinská umræða um fortíð og framtíð þarf að eiga sér stað í Sjálfsstæðisflokknum. Fólkið í landinu vill breytingar í íslensku stjórnmálastarfi. Og við getum spurt okkur: Eru átján ára samfelld stjórnarþátttaka einhverjum stjórnmálaflokki holl?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ljóst er að stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðimanna var með mál í pípunum sem báðir flokkar hefðu getað beitt sér fyrir og voru skynsamleg en þeim tókst ekki að sannfæra landsmenn að verið væri að taka rétt á málum. Samfylkingin í sínum vondu málum fer þá á límingunum enda þykir þeim afar sárt að vera minni flokkur en VG - þar var áróðursvél vinstri manna sem knúði þá ákvörðun áfram ef þú vilt orða það svo. If you can´t beat them join them - ætti kannski að vera nýja slogan xS
Áslaug Friðriksdóttir, 29.1.2009 kl. 10:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.