Fólkið fyrst!
30.1.2009 | 10:32
Fékk fréttir í gærkvöldi um samdrátt og sparnað á mínum gamla vinnustað, Keflavíkurflugvelli ohf. Þar var starfshlutfalli fjölda starfsmanna minnkað um helming. Þetta er gert í ljósi minkandi umferð flugfarþega um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og vafalaust óhjákvæmileg í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Það er samt sem áður gríðarlega sárt að horfa upp á fólk missa vinnuna þótt ekki sé nema að hluta til og tímabundið þar að auki. Óvissan og bjargarleysið verður algjört.
Hugur minn er hjá vinum og fyrrverandi vinnufélugum á þessum tímum.
Það gefur auga leið að ný ríkisstjórn verður að bregðast skótt við í efnahagsmálum eigi landsmenn að lifa af. Pólítískt karp og sundurlyndi sem því miður hefur oft einkennt samstarf flokka á vinstri væng stjórnmálanna er ekki í boði lengur. Fólk hefur litla þolinnmæði gagnvart stjórnmálamönnum um þessar mundir og alls enga þolinmæði gagnvart sjálfhverfum, sjálfumglöðum lýðskrumurum sem hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig. Þjóðina í fyrsta sæti, það er krafan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Siðbót og smáhundar!
29.1.2009 | 10:05
Áróðursvél Sjálfstæðisflokksins er á fullu þessa dagana að hræða landsmenn með kommúnista áróðri og sífelldu juði um að allt fari til andskotans um leið og þeir og þeirra flokkur yfirgefi stjórnarráðið. Ekki búið að mynda ríkisstjórn né nokkur málefnasamningur á borðinu en sami gamli hræðsluáróðurinn byrjaður. En það sem sjálfumglaðir Sjálfstæðismenn gleyma í geðvonskukasti sínu að það voru þeir sjálfir, flokkurinn og fylgismenn þeirra sem stýrðu þjóðinni inn í þetta ömurlega ástand. Því fyrr sem þeir viðurkenna það því minna verður tjón flokksins í komandi kosningum.
Það er talað um siðbót og nýja hugsun í íslenskri pólitík. Það er krafa almennings. Fólk er búið að fá upp í kok yfir spilltum stjórnmálamönnum sem hafa látið eiginhagsmuni ganga fyrir hagsmunum almennings. Græðgihugsunin hefur ráðið og lengi. Að sjálfssögðu hlýtur það að vera þyngra en tárum taki fyrir Sjálfsstæðisflokkinn að missa tökin á atburðaráðsinni. Að geta ekki lengur verið með flokkskrumlurnar á öllu athafnalífi landsins. Og þeir trúa því svo heitt að þeir einir geti stjórnað. Þjóðin gaf þeim tækifæri en vill nú breytingar. Því verða þeir að kyngja.
En sjálfstæðisflokkurinn en fráleitt eini stjórnmálaflokkurinn sem þarf að gera upp fortíðina. Framsóknarflokkur hóf sína siðbót með nýjum formanni. Samfylking verður einnig að gera upp sýna fortíð. Dekur þeirra gagnvart Baugsveldinu má ekki falla í gleymsku. En vissulega bera sjálfstæðisflokkur og framsóknarflokkur mestu pólitísku ábyrgð á hvernig málum er komið. Smáhundadeild Sjálfstæðisflokksins sem og aðrir fótgönguliðar þeirrar maskínu eiga eftir að vera óþolandi næstu vikurnar í áróðri sínum yfir hversu allt var æðislegt á meðan þeir voru við völd. Lítum þá á tölur yfir atvinnulausa. Lítum þá á verðbólguna. Lítum þá á harmleikina sem eiga sér stað allt í kringum okkur hjá fjölskyldum sem ná ekki endum saman. Lítum þá á þá sviðnu jörð efnahagslífsins sem blasir við. Ætlar þessi helsta valdablokk að halda því fram að hún beri enga ábyrgð á því hvernig komið er? Að þetta sé bara óheppileg afleiðing lausafjárskreppunnar sem hófst einhversstaðar í Louisiana?. Nei svo sjálfumglaðir geta þeir ekki verið! Gefum Sjálfstæðisflokknum frí. Átján ár á valdastóli er feikinóg í bili. Flokkurinn er fullur af innanmeinum og þarf að taka sér frí af heilsufarsástæðum. Siðbót, og ekki síst heiðarleg og opinská umræða um fortíð og framtíð þarf að eiga sér stað í Sjálfsstæðisflokknum. Fólkið í landinu vill breytingar í íslensku stjórnmálastarfi. Og við getum spurt okkur: Eru átján ára samfelld stjórnarþátttaka einhverjum stjórnmálaflokki holl?
Nýtt lýðveldi!
27.1.2009 | 11:07
Skráði nafn mitt á undirskriftarlistann á vefsíðunni Nýtt lýðveldi. Þar hafa tekið höndum saman fólk á borð við Njörð P. Njarðvík og Ólínu Þorvarðardóttur ásamt fleirum. Markmið þeirra er að hvetja fólk til að skrifa undir áskorum til Forseta Íslands og alþingismanna um breytingar á stjórnarskránni. Hvet alla til að kynna sér málstað þeirra. Það er breytinga þörf á stjórnarskránni. Margir hafa bent á með skrifum sínum að jafnvel sé þörf á nýju lýðveldi. Að Íslendingar feti í fótspor Frakka og stofni nýtt lýðveldi. Frakkar hafa gert það fimm sinnum síðan í byltingunni 1789.
Nýja stjórnarskrá, nýja hugsun og ný viðmið.
Verk að vinna.
27.1.2009 | 09:32
Nú ríður á að við taki stjórn sem setur fólkið í landinu í fyrsta sæti. Starfsstjórn, vinstri stjórn eða hvað við köllum þetta. Það getur fjandakornið ekki versnað. Sjálfstæðisflokkurinn er hálf aumkunarverður að reyna finna blóraböggul stjórnarslita í Samfylkingunni. Sjálfstæðismenn eru búnir að stýra efnahagsmálum þjóðarinnar í átján ár, og þetta er árangurinn. Algjört hrun. Og að sjálfsögðu kenna þeir öllum öðrum um en sjálfum sér. Aumingjalegt og sorglegt. En það er verk að vinna fyrir nýja stjórn og hún má ekki gleyma sér í ómerkilegu þrasi. Það eru erfiðir tímar framundan og þrengingar. Niðurskurður á mörgum sviðum. Umfram allt þarf að taka á gríðarlegum og sársaukafullum vanda heimilanna. Fyrirtækin verða að ganga og umfram allt má ekki missa allt í bullandi langvarandi atvinnuleysi. Ef allt gengur eftir og heilög Jóhanna verður orðin hæstráðandi til sjós og lands getur hún varla hótað að segja af sér um leið og krafan um niðurskurð kemur inn á borð til hennar. Nú tekur alvaran við!. En hinu er ekki hægt að neyta að engum stjórnmálamanni nú um stundir treysti ég betur en Jóhönnu Sigurðardóttur. Nú er rétti tíminn til að setja manngildið ofar auðgildinu á landinu bláa. Það er verk að vinna og allir verða að leggja hönd á plóg.
Krafan er skýr!
23.1.2009 | 18:37
Hörmulegt að heyra af veikindum Geirs Haarde. En þrátt fyrir það verður flokkur hans að bera pólitíska ábyrgð og fara frá völdum. Það er eftirtektarvert að umræðan hefur snúist frá umræðum um Evrópusambandsaðild að hreinsunar og uppbyggingarstarfi. Það er ljóst að fólk vill breytingar en ekkert yfirklór og kattarþvott laskaðra stjórnmálaflokka. Það verður einnig athyglivert að fylgjast með hvernig stjórnmálaflokkar ætla að endurnýja sig og með hvaða hætti þeir kalla til nýtt fólk til starfa. Því krafan er skýr af hálfu kjósenda sama hvar í flokki þeir eru.
Hinar sönnu hetjur!
23.1.2009 | 09:32
Hinar sönnu hetjur mótmælanna síðustu daga er það fólk sem tók einarða afstöðu gegn ofbeldi og skrílslátum og stillti sér upp fyrir framan alþingi og lögreglu. Með því að ganga á milli manna og tala við þá sem sýndu af sér óafsakanlega hegðum beindu þessar hetjur mótmælunum einmitt í þá átt sem þær eiga að beinast. Hávaðasöm, en umfram allt friðsöm mótmæli. Skrílslæti og ofbeldi sem fámenn klíka ofbeldismanna beitti gegn lögreglunni aðfararnótt fimmtudags er óafsakanleg og á ekkert skylt við þau mótmæli sem m.a. Raddir fólksins hafa staðið fyrir. En við megum ekki missa sjónir á takmarkinu. Forystumenn ríkisstjórnarinnar verða að koma á móts við kröfu þjóðarinnar og boða til kosninga. Megin krafan er eftir sem áður að Sjálfstæðisflokkur víki strax úr ríkisstjórn, gerspilltur og trausti rúin. Fyrr verður enginn friður.
Veruleikafyrring valdsins
22.1.2009 | 09:30
Fáránleikur!
20.1.2009 | 08:50
Ég hitti mikið af fólki í starfi mínu. Eðlilega er mikið talað um fjármálakreppuna og allt sem henni viðkemur. En ég skynja núna, sérstaklega í eftir jólin að fólk er hrætt. Fjölskyldufaðir og aðalfyrirvinna heimilis sem er að missa vinnuna 1. febrúar sagði við mig í gær ,,Ég hef aldrei verið svona hræddur við framtíðina . Það er enga vinnu að fá, aðeins bætur og ég rek ekki fjölskyldu sem telur fimm manns á atvinnuleysisbótum." sagði þessi maður og bætti við ,,Konan mín hefur aðeins verið í hlutastarfi utan heimilis og tímaspursmál hvenær hún missir vinnuna líka. Það er ótrúlega stutt í að ég þurfi að taka erfiðar ákvarðanir varðandi fjárhagslegar skuldbindingar okkar". Þetta er staða sem þúsundir íslendinga eru í núna, fjölmargir sjá enga lausn út úr vandanum nema gjaldþrot. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að koma á móts við fólkið í landinu eru algjörlega máttlausar og Nýju bankarnir eru lítið tilbúnir að aðstoða fólk og svörin sem þú færð þar eru öll á einn veg ,,Okkur skortir heimildir og vitum ekkert hvað við eigum að gera" og það eru hundrað og eitthvað dagar síðan. Á sama tíma berast fréttir af svo ógeðslegri sjálftöku fyrrum eiganda bankanna út úr þeim að manni verður flökurt. Enn má alls ekki persónugera vandann. Á meðan er venjulegir þegnar þessa lands svefnvana af áhyggjum hvernig redda eigi næstu afborgun. það skýtur líka skökku við að fjölmiðlar bera stöðugt fréttir af harkalegum innheimtuaðgerðum fjármögnunarfyrirtækja og nú síðast hefur innheimtumaður ríkissjóðs á Selfossi ákveðið að beita fjársveltri lögreglu sinni á borgarana og færa þá handtekna fyrir sig til fjárnáms. Þetta er farið að minna á fáránleik af verstu gerð. Hvar er hófssemdin í innheimtum sem boðuð var. Ástandið á Íslandi verður sífellt eldfimara og styttist stöðugt í þræðinum, og þá er ég hræddur um að fleiri vopnum verði beitt en piparúða. Núverandi ríkisstjórn er ráðþrota, það hafa ráðherrar sjálfir viðurkennt. Þeir eiga að segja af sér strax og svo verður boðað til kosninga sem allra fyrst. Þannig fáum við þær breytingar sem okkur vantar svo sárlega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skríll og dónar!
19.1.2009 | 20:44
Össur Skarphéðinsson, Iðnaðarráðherra var í moggaviðtali á laugardag. Var um margt áhugavert að lesa viðtalið við Össur enda með hressilegri pólitíkusum þessa lands sé sá gállinn á honum. Í viðtalinu játaði hann að ríkisstjórnin þyrfti nýtt siglingakort. Þá er spurningin? Ætlar Össur að nálgast þetta kort frá kjósendum eða er hann að bíða eftir nýju korti úr Svörtuloftum? Ég er þeirrar skoðunar að það skaði Samfylkinguna að vera í samstarfi við Haarde og hirð hans. Því lengur því verra. Það ættu raunar allir flokkar að fara að dæmi Framsóknar og hefja nákvæma naflaskoðun öllu sínu starfi. Hleypa nýju blóði að. Það er deginum ljósara að Ísland rís ekki úr öskustónni með veruleikafirrtan, valdagráðugan forsætisráðherra sem ætlar að reyna þreyja þorrann og góuna líka.Með öllum ráðum. Er reyndar sammála Guðmundi Andra Thorssyni í Fréttablaðinu í dag þar sem hann skrifar um ómissandi fólk. Guðmundur hittir naglann á höfuðið þegar hann segir að það séu reyndar aðeins pólitíkusar sem séu ómissandi að eigin áliti. Þjóðin má gjarnan missa sín og flækist bara fyrir.Skríll, dónar og hálfgerðir jötunuxar. Að gefa ekki lýðræðiskjörnum fulltrúum vinnufrið eins og einn ráðherrann mælti fullur af hneykslan yfir framferði skrílsins. Er ekki eitthvað mikið að þegar þjóðin, sem kaus þingið hefur síðan ekkert um það að segja þegar allt er komið til andsk...? Ég er sammála þeim sem boðað hafa til mótmælastöðu við Alþingishúsið á morgun og hvet fólk til þáttöku þegar þingheimur lufsast í vinnuna eftir jólafrí. Það er til marks um þvílíkt skrípó þetta Alþingi okkar er! Landsmenn eru að takast á við mestu fjármálakreppu sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir og Alþingi hagar sér eins og þeir séu Kvenfélagið á Króksfjarðarnesi. Bara fundað tvisvar á ári Haustfundur og vorfundur. Með annars fullri virðingu fyrir öllum heimsins kvenfélögum. Þetta sýnir bara var á þróunarbrautinni Alþingi er statt. Í sögubókum framtíðar verður alltaf talað um þátt Alþings í fjármálakreppunni sem eitt mesta niðurlægingartímabil þessarar lykilstofnunar íslensk lýðræðis. Aum afgreiðslustofnun fyrir frekt framkvæmdavald. Það er sérstaklega sárt til þess að hugsa að það er algjörlega þingmönnum sjálfum um að kenna hvernig komið er fyrir þinginu. Flokksagi og eigið framapot hefur verið sett framar velferð þjóðarinnar og það er næg ástæða til að kjósa til nýs Þings. Strax.
Hvað gera Sjálfstæðismenn?
19.1.2009 | 09:17
Það er óhætt að óska framsóknarmönnum til hamingju með nýja flokksforystu. Heldur betur sögulegt þegar að gamli bændaflokkurinn er orðinn evrópusinnaður þó með slíkum fyrirvörum að varla er mark á takandi. Eins og þeir hafi viljað en ekki þorað að kasta sér á fullum þunga út í Evrópófljótið. En sögulegt engu að síður. Ekki síður merkilegt að þingfulltrúar virðast hafa viljað algjörlega nýja forystu. Formaðurinn nýgenginn í flokkinn en lofar góðu. Þetta ættu reyndar allir stjórnmálaflokkar að gera, að skipta út gamla slektinu og leyfa grasrótinni að velja fólk til að leiða flokkana. Hvað koma sjálfstæðismenn til með að gera á sínum landsfundi? Jú þeir mæra Haarde sem Íslands einu von og þakka honum fyrir vel unnin störf, fallast svo í faðma og grenja á öxlinni hvor á öðrum og segja ,,Við erum æðisleg, hvað ísland á gott að hafa okkur" En Sjálfstæðismenn þyrftu heldur betur að taka sér gamla samstarfsflokkinn til fyrirmyndar og henda núverandi forystu út í hafsauga og kjósa nýja grasrótarforystu. En það mun ekki gerast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)