Jólin kvödd í Reykjanesbæ.

Við fórum fjölskyldan á þrettándagleði áðan sem haldið var við Ægisgötuna í Keflavík. Það er áralöng hefð fyrir að kveðja jólin með pomp og prakt hér í Reykjanesbæ. Til margra ára var þetta gert ofan við byggðina, neðan við Reykjanesbraut en sá staður þótti óheppilegur þó ekki væri fyrir annað en að þurfa klöngrast yfir móa og mela í svartamyrkri. Fyrir tveimur árum ákváðu bæjaryfirvöld að færa þessa dagskrá niður í bæ og virðist það hafa lukkast vel. Kveikt er í lítilli brennu við sjávarkambinn svo er komið fyrir sviði þar sem álfakóngur og drottning ásamt tröllum, jólaveinum og öðrum vættum syngja og tralla. Löng hefð er fyrir að Karlakór Keflavíkur og Kvennakór Suðurnesja leggi til kóng og drottningu. Léttsveit tónlistarskólans leikur undir og er enginn svikinn af hennar leik, frábær hljómsveit og frábær stjórnandi, Karen Sturlaugsson. Í lok dagskrár bauð svo Björgunarsveitin Suðurnes upp á frábæra flugeldasýningu. Stórkostlegar sprengingar í um 10 mínútur. Allir fá svo heitt kakó. Þetta eru skemmtilegar stundir á fjölskylduvænum tíma. Hefst kl. 18 og er öllu lokið á klukkutíma eða svo. Þá er nægur tími að koma ungviðinu heim í háttinn og allir glaðir.

Var hálfpartinn fegin að vera hvattur af íslenskum trúfélögum að sleppa því að taka niður hvítu ljósin. Er með allt í hvítu þökk sé minni elskulegu. Læt  nægja að taka niður jólatréð og eitthvað af jólaskrauti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband