Hve mikil er ábyrgð Ingibjargar Sólrúnar á bankahruninu?

Jón Baldvin skrifar ansi harðorða grein gegn Ingibjörgu Sólrúnu í mogga í dag. Sakar hana beinlínis um að vera ekki í sambandi við þjóð sína. Að mörgu leiti fer gamli kratahöfðinginn með rétt mál því það er fráleitt ef Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin telji sig geta spilað sig frítt frá stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðismenn. Að sjálfsögðu ber Samfylking ábyrgð á því stjórnarsamstafi og aðgerðarleysinu í kjölfar bankahrunsins.

Össur Skarphéðinsson utanríkis og  iðnaðarráðherra sagði í umræðum á Alþingi nýlega að Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki stjórntækur. Þá vafalaust vegna innanflokksátaka og deilur um stefnu og valdabarátta um formannssæti. Vissulega alveg rétt ígrundað hjá ráðherranum en það leiðir vissulega hugann að heilsufari Samfylkingarinnar. Er ástandið á þeim bænum svo gott að liðsmenn hennar séu dómbærir á heilsufar á öðrum bæjum?

Lengi vel hefur maður haft þá tilfinningu að Samfylkingin séu í raun þrír flokkar sem fátt eða ekkert eiga sameiginlegt nema að hafa sammælst um Ingibjörgu Sólrúnu sem veraldlegan leiðtoga sinn og vilja vera við völd. Að öðru leiti virðist Samfylking loga í innanflokksátökum. Bera ummæli Jóns Baldvins á fundi Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur þess glöggt merki. Eða er rödd gamla kratahöfðingjans kannski mjó og hjáróma og afgreidd sem óráðshjal gamals manns í flokknum?

það er vissulega áhugavert fyrir áhugamenn um íslenska pólitík að fylgjast með umræðum Samfylkingarmanna næstu vikurnar. Verður gagnrýni Jóns Baldvins á Ingibjörgu Sólrúni til þess að fleiri gagnrýnisraddir fara að heyrast um hennar störf? Mun Jóhönnu líka það vel við þykkbólstraðan forsætisráðherrastólinn að erfitt verði að standa upp?

Fólkið í landinu gleymir seint  ummælum Ingibjargar Sólrúnar á borgarafundi í Háskólabíói ,,Þið eruð ekki þjóðin". Ekki alveg í takt við ólguna og andrúmsloftið í þjóðfélaginu á þeim tíma.

Ingibjörg Sólrún er klárlega leiðtogi Samfylkingarinnar og verður án efa endurkosin formaður gefi hún áfram kost á sér.

En hvað með kjósendur Samfylkingarinnar? Er hún sá leiðtogi sem þjóðin vill í Stjórnarráðið.

Eða hugsum við um 100 daga klúðrið eftir bankahrunið mikla og ábyrgð hennar í því ferli öllu?

 


Nýtt blóð.

Hitti vin minn og gamlan skólabróður á förnum vegi og tókum við tal saman. Hann sagðist hafa fylgst með því á blogginu mínu og orðið hálf hissa hve afdráttarlausa afstöðu ég tæki gegn Sjálfstæðisflokknum. Já hissa, því lengi vel barðist ég fyrir þann flokk leynt og ljóst. Smalaði fyrir kosningar og var sannkallaður fótgönguliði.

Var. Því fyrir töluvert löngu síðan í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðismanna og Framsóknar þá hætti ég að trúa á þessa stefnu sem flokkurinn boðaði og boðar. 

Þannig að ég get sagt við alla sem heyra við vilja að Kristján Jóhannsson var stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins en hef ekki verið það síðan 2005. Kaus ekki flokkinn í síðustu kosningum.

En af hverju er ég að tuldra þetta í barminn. Jú það getur vel verið að þó að mér hugnist ekki flokkurinn undanfarin ár og alls ekki í núinu þá getur vel verið að það gerist einhvern tíman að mér snúist hugur. Veit ekkert um það. Hef heldur ekki gengið í neinn annan flokk. Getur vel verið að ég geri það, einhvern tíman.

En það er alveg ljós í mínum huga að fyrir næstu kosningar vil sjá alla flokka sem hyggjast bjóða fram til alþingis axla sína ábyrgð á því hvernig komið er fyrir íslenskri þjóð. Alla.

það verði gerð alvöru uppstokkun og endurnýjun á framboðslistum flokkanna og það verði almennileg siðbót í íslenskri pólitík.

Það er afdráttarlaus krafa kjósenda.

Þannig verður vonandi hægt að ná fram alvöru breytingum á Íslandi.


Er Alþingi óstarfhæft?

Alveg erum við íslendingar stórkostleg þjóð. Þegar neyðin er stærst þá rífumst við hæst.

Ég hef fylgst ángdofa með umræðum frá Alþingi síðustu daga í gegnum fjölmiðla og verð að segja það er orðið undartekning ef eitthvað af viti kemur frá löggjafarsamkomunni. Endalaust karp og riflildi. Frammíköll og almennt stjórnleysi. Það er rifist um allan fjárann frá eignahaldi á frumvörpum til starfa ríkisstjórnarinnar. Eðlilega og eðli málsins samkvæmt eiga stjórn og stjórnarandstæða ekki alltaf samleið en nú er nóg komið.

Það liggur við að alþingi ætti að senda sig heim og neyðarstjórn verði sett á sem stjórnar með tilskipunum fram yfir kosningar. Alþingi er hvort eð er stjórnlaust og kemur engu í verk.

Meirihluti þingmanna virðast álíta að þeir séu að vinna ómissandi störf og hyggjast bjóða sig fram á nýjan leik.

Ætlast þeir til að þjóðin kjósi þá til svona starfa?

Svari nú hver fyrir sig!


Þögn verkalýðsforystunnar.

Heyrði viðtal við Skúla Thoroddsen, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins í Speglinum í gærkvöld. Margt áhugavert í máli Skúla eins og alltaf.

En eitt hnaut ég við:

Hann talaði um að verkalýðshreyfingin ynni á fullu við að greina ástandið og koma með lausnir til úrbóta.

Má vera. En mikið svakalega fer nú þessi starfssemi þeirra hljótt í samfélaginu.

Að mínum dómi á verkalýðshreyfingin öll að vera miklu háværari í allri umræðu um vanda heimilanna í landinu.  Láta í sér heyra af meiri ofsa og berjast fyrir sína umbjóðendur. Af hörku en sanngirni.

Er kannski erfitt fyrir þá að gagnrýna stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna?

Eða er hugsun verkalýðsforkólfa sú að  láta bara lítið fyrir sér fara og vona að þetta reddist einhvernvegin? Láta pólitíkusa um þessi leiðindi.

Þarf kannski að skipta út einhverjum forkólfum Verkalýðsins?

Fá baráttumenn í djobbið?

Fá einhverja sem muna hvernig er að lifa á 200 kallinum út mánuðinn?

 


Óreiðumenn á ofurlaunum!

Lífeyrissjóðirnir boða skerðingu til rétthafa lífeyrisgreiðslna. Það út af fyrir sig er óafsakanlegt af hálfu sjóðanna. Ber vott um mikla vanhæfni þeirra sem áttu að hámarka ávöxtun sjóðsfélaga.

Lágkúrulegt að á sama tíma og greiðslur sjóðafélaga er skertur sitja stjórnendur þeirra á ofurlaunum við að klúðra málum.

Það hlýtur að vera réttmæt og sjálfsögð krafa að stjórnendur þeirra axli ábyrgð og segi af sér.

Framkvæmdastjórar á ofurlaunum. Fyrir hvað?

Að tapa peningum sem eiga ekki sjálfir?

Segi sama við þá og aðra óráðssíumenn. Kennið ekki öðrum um vanhæfni ykkar segið af ykkur.

Strax.


mbl.is Skerða lífeyri um allt að 10%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óbærilegur veruleiki valdamissis!

Það er átakanlegt að fylgjast með tilvistarkreppu sjálfstæðismanna þessa dagana. Þeir reyna að bera sig vel og lofuðu harðri stjórnarandstöðu. Það má segja að það hafi gengið eftir nú eru þeir á móti öllu sem stjórnin leggur fram í stað Vinstri grænna áður.  Sjálfstæðisflokkurinn berst nú af heilum hug gagnvart öllum frumvörpum ríkisstjórnarinnar jafnvel þeim sem þeir sjálfir áttu þátt í að skapa á sínum stjórnardögum. Frekar en að koma með lausnir til handa heimilum þá karpa þeir um höfundarrétti á frumvörpum.

Þannig reka þeir sína stjórnarandstöðu.

Vissulega hlýtur það að vera óbærilegt fyrir flokksveldi sem áður réði öllu á Íslandi að vera nú settir til hliðar og fá engu að ráða, og allir vondir við þá í þokkabót.

Já og líka vondir við Davíð. Það bara má ekki. Davíð var alltaf svo góðir við þá.

Ef þeir pössuðu sig á að segja ekki neitt sem gat valdið reiði keisarans.

 Nú eru runnir upp aðrir tímar. Aðrir farnar að ráðskast með völdin þeirra.

Reka þeirra menn úr stjórnunarstöðum í Forsætis-og Fjármálaráðuneyti.

Það er von að Haarde taki upp hanskann fyrir gamla reglubræður og spilafélaga.

En af hverju notaði nú Haarde ekki allan þennan tíma eftir bankahrunið og reyndi að koma einhverju í verk. Einhverju sem þjóðin hefði virkilega tekið eftir. Til dæmis að sýna einhverja viðleitni í að láta ráðherra axla ábyrgð á sínum málaflokkum. Nei. það mátti ekki persónugera vandann. Af hverju talaði hann ekki til þjóðarinnar og reyndi að stappa í hana stálinu. Nei hann bað guð að blessa Ísland. Og það lá við panikástandi hjá þjóðinni. Af hverju fann hann ekki leiðir til að koma að vanda heimilanna á þessum 100 dögum?

Nei en að eru fyrst og fremst Sjálfstæðismenn sjálfir sem eru að persónugera vandann með að einblína á þessa örfáu embættismenn sem hafa verið látnir stíga til hliðar. Eðlilega, þetta eru allt saman embættismenn úr innsta hring Sjálfstæðisflokksins.

Auðvitað eru þeir látnir taka pokann sinn.

Það er augljós krafa frá þjóðinni um breytingar á öllum sviðum stjórnsýslunnar. Það að skipta út embættismönnum er bráðnauðsynlegt. Það var Geir sem hefði átt að ráðast í þær breytingar en hann gerði það ekki.

En það er einnig víðtæk krafa frá þjóðinni um breytingar á öllu stjórnmálstarfi. Innan flokka og á Alþingi.

Gleymum því ekki.


Samúðin með Davíð!

Öll eigum við að hafa mikla samúð með Davíð Oddsyni og hinum bankastjórunum. En þó sérstaklega Davíð Oddsyni, þessum fyrrum sjálfkrýnda keisara Sjálfstæðisflokksins og hæst ráðenda til sjós og lands. Það hlýtur að vera ægileg tilfinning fyrir hann að það eigi að bola honum út úr djobbinu sem hann réð sig í sjálfur...ehh, fékk arftaka sinn reyndar til að skrifa undir svo þetta væri nú allt saman eftir bókinni.

Davíð sem óskeikull leiddi þjóð sína allt til ársins 2005 og kom vissulega ýmsu góðu til leiðar. En hann er formaður bankastjórnar í Seðlabanka sem hefur brugðist bogalistinn við peningamálastjórn ríkisins og á því að víkja.

En þessi gamli baráttuhundundur ætlar ekki að fara möglunarlaust.

Býst hann við að samúðarbylgja fari um þjóðfélagið og hann verði grátbeðin um að halda áfram. Heldur hann að fylgið hrannist að Sjálfstæðisflokknum. Hann heldur kannski að hann sé ómissandi. Það sé enginn annar betur fær í djobbið.

Heldur hann kannski að fólkið fyrir utan Seðlabankann sé til að hvetja hann til frekari dáða í bankanum? Kannski!

En því er samúðin með honum. Að leika sig sem einhvern píslarvott. Honum var gefið tækifæri til að segja af sér  en hann þáði það ekki. Nú verður starfið hans lagt niður.

En það fer fyrir honum eins og svo mörgum öðrum ósmissandi mönnum. Hann fer!

Mjög fljótlega.

En í guðanna bænum ekki missa okkur í ofbeldi út af þessum máli. Umfram allt friðsöm mótmæli.


mbl.is Mótmælt við Seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með ósk um velfarnað!

Þekki Ingigerði af góðu einu. Njarðvíkingur sem leitaði á heimaslóðir fyrir nokkrum árum.

Óska henni velfarnaðar í komandi prófkjörsslag.


mbl.is Ingigerður í framboð í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má bjóða þér stöðumat?

Bankarnir auglýsa nú hver um annan þveran hagnýt ráð fyrir viðskiptavini. Og hvað skildu þér helst bjóða upp á: Stöðumat og frítt heimilisbókaforrit. Frábært allt farið til helv....í peningamálum heimilanna og að stærstum hluta þeim að kenna og hvað? Boðið upp á stöðumat.

Stöðumat! Vita þessir bankamenn ekki stöðuna hjá 90% landsmanna.

Er ekki allt í lagi?

Færi ég að setjast niður með  landasala og ræða við hann um skaðsemi áfengis? Nei.

Færi ég að setjast niður með þjófi til að ræða við hann um öryggismál heimilisins? Tæplega.

Hefur einhver áhuga á að ræða við starfsmenn bankadruslu, sem stendur á svo miklum brauðfótum. Gjaldþrota leifum af einhverju sem eitthvað var einu sinni og ræða við þá um mín fjármál til framtíðar? Ég svara fyrir mig. Nei takk.

Bankaleifarnar eiga að skammast sín til biðja viðskiptavini sína afsökunar á framferði sínu. Viðskiptavini sem þeir fengu í arf frá óráðsíubatteríunum.

Ég var aldrei spurður hvort ég vildi halda áfram að eiga viðskipti við Landsbankann. Ég sit uppi með hræið og þeir með mig og við í sameiningu þurfum hvorki stöðumat né nýtt forrit í tölvuna til að vita stöðuna. Hún er slæm og horfurnar verri.

Það eina sem mig vantar er alvöru banki sem vill gera eitthvað af viti fyrir mig og aðra sem trúðu þessum útrásargaurum.

Og héldum að allt yrði alltaf gott á landinu bláa.

Ég vona að sem flestir hlægi að þessum mátlausu, tilgerðarlegu tilburðum í dauðvona hræi og fari frekar og votti starfsmönnum þessarar skúffufyrirtækja samúð sína fyrir að þurfa taka þátt í svona fíflalátum.

Almennir starfsmenn bankaleifanna eiga allt gott skilið og miklu meira en það að taka þátt í svona bulli.

Stöðumat!

 


Gjaldfallnir þingmenn!

Er ég einn um að finnast þingmenn gjaldfella sig svakalega með málfundartöktum á alþingi þessa dagana? Sjálfstæðismenn eru að reyna sanna sig í stjórnarandstöðu á meðan allur málflutningur VG er hófstilltari frá því sem áður var. Samt sem áður finnst mér algjörlega vanta á að alþingismenn vinni samhentum höndum að lausn þeirra brýnu mála sem liggja fyrir þinginu. Þar er rifist um öll smáatriði og eilíft verið að reyna ota sínum tota á meðan fólkið, kjósendur þessa sömu þingmanna er að missa vinnuna og skuldir heimilanna aukast. Vissulega sýnist manni að ríkisstjórn Jóhönnu sé eitthvað að vinna í málum og hvað þá. Sjálfstæðismenn rjúka upp og fara að karpa um höfundarrétt á frumvörpum ríkisstjórnarinnar.

Aumkunarverð framkoma. Af hverju eru þeir ekki fyrir löngu búnir að leggja fram tillögur að lausnum illa staddra heimila og fyrirtækja? Þeir hafa haft yfir hundrað daga til þess.

Ég ætla ennfremur að áskilja mér allan rétt til harkalegrar gagnrýni á alla núverandi þingmenn. Að mínu áliti bera þeir flestir ef ekki allir ábyrgð á því ástandi sem upp í er í þjóðfélaginu. Ef ekki beint, sem klappstýrur og braskarar í útrásinni þá ábyrgir fyrir liðleskjuhátt og aumingjaskap sem einkennt hafa þingstörf síðustu vikur.

Ég hef áður vakið athygli á þeirri staðreynd að þingmenn létu teyma sig um miðja nótt inn í þingsal að samþykkja neyðarlögin hans Geirs. Það gerðu þeir án þess svo mikið sem að lesa þau yfir eða gera einhverjar athugasemdir við þau. Og núna heyrast raddir um að neyðarlögin hafi verið og séu meingölluð.

Þá nótt gjaldfelldu þeir sig sem fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi. Allir með tölu.

Eins dagana á eftir þegar þeir sátu hjá í allri umræðu og fannst fátt merkilegra en að ræða vín í búðum. Þvílíkir fulltrúar þjóðarinnar!

Fyrir það set ég stórt spurningamerki við að það sé rétt að kjósa þá aftur.

En það er í þeirra höndum að afsanna það.

Er einhver dugur í þeim?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband